Gunnlaugur Guðmundsson
stjornuspeki.is

Hugleiðsla - vakandi athygli

4. nóvember 2014

Hugleiðsla er til í mörgum formum en sú skilgreining sem hefur setið hvað fastast í mér er komin frá Guðspekifélaginu, Grétari Fells og Sigvalda Hjálmarssyni, eftir því sem ég best veit.

Þessi skilgreining gengur út á það að hugleiðsla sé tæki til að þjálfa og þroska með sér vakandi athygli.

Hvað er vakandi athygli? Orðin skýra sig sjálf, en það sem gerist – afleiðingin – er að vakandi athygli gerir okkur kleift að sjá - vafningalaust og án ímyndana - sannleikann í reynslu hvers augnabliks.

Vakandi athygli gerir okkur kleift að fylgjast af einbeitingu með viðfangsefni hverrar stundar. Hún er andstaða þess að vera annars hugar og utan við sig.

Iðkun hugleiðslu gengur samkvæmt þessu ekki út á það að tæma hugann – eins og margir virðast halda – heldur það að fylgjast með.

Vera vitni í eigin lífi - fylgjast með upplifunum eigin tilfinninga, líkama og huga.

Iðkunin gengur einfaldlega út á það að við setjumst til dæmis á stól eða púða og beinum sjóninni að okkur sjálfum, að reynslu líðandi augnabliks.

Eftirtekt og athyglisgáfa

Til hvers erum við að þessu? Hvað gerist?

Hugleiðsla skerpir athyglina og stuðlar að hugarró og yfirvegun.

Með því að fylgjast með þá hættum við að vera föst í tilfinningum okkar, huga og líkama. Við verðum áhorfendur. Við myndum fjarlægð sem gerir okkur kleift að losa okkur undan ægivaldi huga, líkama og tilfinninga.

Almenn afleiðing þess að fylgjast með er aukin eftirtekt. :-)

Smátt og smátt tökum við að sjá það sem áður var falið bakvið skvaldur hugans.

Við lærum að vera vakandi. Við hættum að vera utan við okkar og að fást hálf sofandi - með hangandi hendi - við verkefni daglegs lífs.

Að aka bíl með vakandi athygli forðar okkur frá því að lenda í árekstri. Orsök flestra óhappa í umferðinni er sú að fólk er ‘sofandi’ við stýrið og athyglin bundin öðru en því að aka bílnum.

Að tala við börnin okkar með vakandi athygli gerir okkur kleift að skilja þarfir þeirra betur en ella.

Við náum betri árangri í vinnu þegar athyglin er vakandi og við einbeitum okkur að hverju verki.

Staðreyndin er sú að við erum oft með hugann annars staðar, tökum ekki eftir umhverfinu og gerum fyrir vikið margs konar mistök.

Vitund okkar er tvístruð. Hugsanir þjóta um heilann eins og apar í búri. Tilfinningar - reiði, vanlíðan og pirringur – rísa upp úr undirdjúpunum líkt og hákarlar sem éta athygli okkar.

Hugleiðsla sem þjálfun í vakandi athygli kemur í veg fyrir slíkt.

Næmari skynjun

Fyrir utan apalæti og árásir frá hákörlum sálarlífsins þá er vitund okkar oft og iðulega föst í alls konar ímyndunum og dagdraumum. Svo mjög að við tökum ekki eftir beinni reynslu skynfæranna.

Það að athyglin er sundruð þýðir að skynjanir okkar verða daufar og litlausar.

Með því að iðka hugleiðslu, efla athyglina og eyða minni tíma í dagdrauma, verður skynjunin næmari og sterkari.

Að opna á orkuflæði líkamans

Oft er flæði orkunnar í líkama okkar stíflað. Með því að iðka athyglisæfingar verðum við vör við hnúta og spennu sem hefur hlaðist upp í líkamanum.

Þessar stíflur birtast í hugleiðslunni sem líkamlegur sársauki eða óþægindi.

Með því að fylgjast með þessum sársauka og gera sér ljósa grein fyrir honum er tekið fyrsta skrefið í þá átt að losa um stífluna.

Sársaukinn er eins og blikkljós í mælaborðinu á bílnum sem gefur til kynna að bilun sé til staðar.

Dauðir merkimiðar og bein skynjun

Einn af jákvæðum fylgifiskum hugleiðslu er að við komumst frá hugtakasviði yfir á svið beinnar skynjunar.

Hugtök eru nöfn og merkimiðar sem við gefum umhverfi okkar og reynslu. Hugtök eru ekki það sama og raunveruleikinn.

Orðið tré er ekki annað en nafn á flóknu lífrænu fyrirbæri. Fyrirbærið tré gegnir margs konar hlutverkum og er ekki óumbreytanlegt heldur í stöðugum vexti og þróun.

Það að klína merkimiðum á raunveruleika lífs okkar leiðir til þess að við hættum að skynja lífið sem er að baki allra hluta.

Hugleiðsla hjálpar okkur að yfirstíga þetta vandamál.

Með því að beita vakandi athygli tökum við að upplifa lífið í formi beinnar reynslu. Við sjáum streymi hugsana og tilfinninga í stað þess að drepa flæði þeirra með merkimiðum.

Við uppgötvum dýpra sjálf sem er handan við hugsanir, líkama og tilfinningar.

Við sjáum að við erum ekki tilfinning heldur áhorfandi sem er að fylgjast með tilfinningu.

Við sjáum að við erum ekki hugsanir heldur vitund sem horfir á hugann.

Við sjáum að líkaminn er starfstæki sálar okkar.

Allt þetta eykur frelsi okkar. Við verðum ekki lengur á valdi tilfinninga, hugsana og líkamlegra hvata. Ekki í sama mæli og áður.

Við verðum óháðari og æðrulausari. Við getum farið að stjórna – taka meðvitaðar ákvarðanir - í stað þess að lúta stjórn.

Allt þetta minnkar þjáningu okkar.

Að hægja á öldrun

Með því að þjálfa virka og vakandi athygli getum við unnið gegn stöðnun. Við getum hægt á öldrun í lífi okkar.

Eitt af því sem flýtir fyrir öldrun, er að við hættum að læra. Við merkjum æ fleiri hluti í umhverfi okkar, afgreiðum æ fleiri hluti og teljum okkur vita allt um þá. Við missum áhugann á umhverfinu. Við hættum að forvitnast og taka eftir.

Við hættum að nota hugsun okkar á sama hátt og barnið og þeir sem eiga framtíðina fyrir sér. Hún hrörnar. Við leggjum af margvíslegar athafnir, því við vitum hvernig þær eru. Fyrir vikið verður líf okkar einhæfara. Það er þetta sem gerir marga gamla, langt um aldur fram.

Það sama gerist oft í hjónabandi. Á vissu stigi sambandsins ákveðum við hvernig maki okkar er. Við hættum að taka eftir honum og gleymum því að hann getur breyst.

Við hengjum á hann merkimiða. Hann verður 'makinn sem ég veit allt um' en ekki flókið lífrænt fyrirbæri í stöðugum vexti og þróun.

Sama hætta er til staðar í vinnu. Við merkjum alla hluti á vinnustaðnum: Svona á þetta að vera. Þessi aðferð virkaði í gær og því ætla ég að nota hana áfram. Afleiðingin er sú að vinnubrögð okkar verða úrelt og við með tíð og tíma óhæfir starfskraftar.

Þjálfun í vakandi athygli – hugleiðsla - vinnur gegn þessu öllu.

Ímyndanir

Andstæða athygli er að ímynda sér hluti sem ekki eru til staðar þar sem dvalið er hverju sinni. Slíkar ímyndanir geta skapað margvíslegan vanda.

Maður sem er að aka í vinnuna og er um leið að rífast við konu sína í huganum er hættulegur umferðinni, enda að hálfu staddur annars staðar.

Margir hafa stöðugar áhyggjur vegna ímyndana um það sem gæti gerst, í sambandi við vinnu, fjármál, ástvini og svo framvegis.

Áhyggjur eru ímyndanir. Ekki raunveruleikinn, heldur ótti við eitthvað sem gæti gerst. Ótti sem á heima í stjórnlausum huga okkar – apar og hákarlar sem við ráðum ekki við.

Dæmin eru mörg en staðreyndin er sú að ímyndanir og skortur á athygli draga úr hæfni okkar til að lifa og skynja lífið til fulls.

Að hugsa út í bæ

Ég hef kallað þetta að hugsa út í bæ. Þegar ég er að ímynda mér eitthvað sem gæti gerst á morgun, á fundi með Jóni á einhverjum stað, þá er ég að hugsa út í bæ.

Hugsa mig í burtu frá hér og nú, og lifa á stað - sem þegar nánar er að gáð – er bara til í hausnum á mér sjálfum.

Ég segir því við sjálfan mig: Hættu að hugsa út í bæ. Hugsaðu um það sem er að gerast hér og nú. Horfðu á það sem er hér.

Þjálfun í vakandi athygli – hugleiðsla - vinnur gegn því að hugsa út í bæ.

Lokaorð um almenna hugleiðslu

Það er ekki rétt að sækjast eftir beinum áhrifum af hugleiðslu. Árangurinn verður mestur ef við stefnum ekki að öðru en því að iðka hugleiðsluna.

Að iðka er að fylgjast með. Það er allt og sumt. Hugleiðsla er að horfa og hlusta. Þegar við setjumst niður og horfum og hlustum þá vaknar athyglin sem sefur þegar við erum alltaf á hlaupum.

Það er nauðsynlegt að segja frá árangri, til að vekja áhuga, en of meðvituð sókn í árangur dregur úr einbeitingu og athygli. Athyglin festist í baráttunni við árangur og við töpum tengslunum við sjálf okkar.

Ef hugleiðslan er erfið og ég órólegur, fínt. Ef hún er auðveld og ég yfirvegaður, fínt. Ég er að fylgjast með mér. Horfa á mig eins og ég er. Ég er að læra að sjá mig eins og ég er hverju sinni. Ég beiti vakandi athygli, hér og nú. Vökustundunum fjölgar.

Smátt og smátt, með tíð og tíma, uppgötva ég að líkami minn, hugur og tilfinningar eru starfstæki – ekki ég sjálfur.

Ég er ekki líkaminn, hugurinn og tilfinningarnar, ekki frekar en að ég er minn ágæti Nissan Patrol 2002 módel, sem ég nota til að komast á milli staða.

Handan þessara starfstækja – líkama, huga og tilfinninga - er hið raunverulega sjálf. Sálin mín. Handan sjálfsins og sálarinnar er síðan æðri máttur, orkuuppspretta lífsins. Þaðan sem ég og við öll erum komin.

Vakandi athygli. Það er málið.

Svona sjá Indverjar þetta:

Næsta grein í þessum flokki: Iðkun hugleiðslu.

© 2018 Gunnlaugur GuðmundssonSímar: 897 7176
g.gudmundsson@icloud.com774 1088