Gunnlaugur Guðmundsson
stjornuspeki.is

Heilbrigði vs óheilbrigði

29. október 2014

Hlutverkin í lífi okkar

Öll gegnum við mörgum hlutverkum í lífinu.

Við erum tilfinningaverur: sonur/dóttir, fjölskyldumaður, faðir/móðir.

Við erum samskiptaverur: vinur/elskhugi/ástkona.

Við erum einstaklingar/egóistar.

Við erum hugsuðir, námsmenn/tungumálamenn.

Við erum stríðsmenn, þurfum að verja okkur og berjast fyrir brauði okkar.

Við erum þjóðfélagsþegnar, gegnum starfi og stöðu.

Við þurfum að klæða okkur og móta ímynd og persónulegan stíl.

Innra með er sóknarkraftur, löngun í nýtt, betra og 'stærra' líf.

Öll erum við takmörkuð og föst í efnisramma.

Allt er þetta mismunandi frá einum til annars.

Tala má um hlutverk og þarfasvið.

Til að viðhalda heilbrigði þurfum við að vera virk á öllum hlutverka- og þarfasviðum lífsins.

Einkenni óheilbrigðis

Ef virkni er forsenda heilbrigðis, þá er vanræksla orsök óheilbrigðis. Ferlið er eftirfarandi, vanræktar þarfir umbreytast:

Í pirring (ég verð pirraður þegar ég fæ ekki útrás fyrir orku mína og langanir).

Í óánægju (ég verð neikvæður út í sjálfan mig, það brýtur sjálfstraustið niður).

Í öfund (ég öfunda þá sem eru að gera það sem ég geri ekki).

Í innri baráttu (ég rífst við sjálfan mig og reyni að hafa hemil á kröftum sem eru að brjótast um innra með mér).

Í ójafnvægi (ég sveiflast til í hegðun, segi eitt í dag og geri annað á morgun, byggi upp og brýt niður, stofna heimili, ríf niður heimili, fer í samband, fer úr sambandi).

Í hömluleysi (innra hungur sem ég skil ekki leiðir til hömluleysis og græðgi, ég borða of mikið, ég eyði of miklu, ég sæki í ytri vegtyllur – allt til að fylla upp í innra tóm).

Í reiði (ég öskra á maka, börn, systkini, vini, vinnufélaga, afgreiðslufólk, á samfélagsmiðlum, því mér líður illa).

Í ofbeldi (ég lem frá mér til að fá útrás fyrir orku sem ég skil ekki, ég brýt rúður, skemmi bíla, slæ konuna mína, aðrir lemja mig, ég hata fólk).

Í þreytu (ég hef enga orku) og sjúkdóma (ég veikist, líkami minn gefst upp).

Aðferðafræði heilbrigðis

Að vera heilbrigður er að vera heill, að vera heill er að vera heilsteyptur. Heilbrigði kallar á vinnu sem er fólgin í því að næra allar þarfir okkar.

Aðferðin er þessi:

Skilningur/þekking. Fyrsta skrefið er að öðlast skilning á því hvaða hlutverk við erum að glíma við. Hver og einn þarf að skilja og þekki upplag sitt og grunnorku.

Sátt/viðurkenning. Næsta skrefið er að sættast við og viðurkenna að svona erum við (ég/þú) að upplagi.

Útrás. Þriðja skrefið er að fá útrás í athöfnum sem eru nærandi fyrir okkur sjálf en ekki aðra. Það gerum við með því að dvelja í umhverfi og fást við athafnir sem eru réttar fyrir okkur en ekki aðra.

Viðurkenningarþörfin: óvinur heilbrigðis

Stærsti óvinur sjálfsþekkingar og heilbrigðis er tilhneigingin til að þóknast öðrum, í þeim tilgangi að öðlast viðurkenningu. Slíkt leiðir oftar en ekki til vanrækslu á eigin þörfum og þar með óheilbrigðis.

Orkugreining

Þetta er hornsteinninn í þeirri vinnu sem ég er að fást við í stjörnuspeki í dag. Ég hef gert stjörnukort í 40 ár. Unnið við fagið í 33 ár. Hlutirnir standa ekki í stað. Ég læri. Ég útbý nýja tegund af stjörnukortum og persónulýsingum.

Ég greini þá orku sem er í upplagi hvers manns, á þeim hlutverka- og þarfasviðum sem nefnd eru efst í þessari grein. Markmiðið er að stuðla að skilningi og sátt.

Síðan bendi ég á þau skref sem hver og einn þarf að taka til að næra öll þarfasviðin, þ.e.a.s. vísa á athafnir sem veita heilbrigða útrás.

Heilbrigði er ekki bara líkamlegt atriði – matur og hreyfing. Einnig þarf að huga að hinum andlega og félagslega þætti. Við þurfum að fá útrás fyrir öll þarfasvið persónuleikans!

Til að það megi gerast þarf að vera til staðar greining á grunnorku hvers einstaklings. Slík greining er fyrirbyggjandi. Slík greining er nauðsynleg því hið ágæta heilbrigðiskerfi okkar er sjúkdómamiðað og setur stóran hluta af orku sinni í það að meðhöndla afleiðingar, ekki í það að greina orsakir.

Ég vona það innilega lesandi góður að þú styðjir mig í þessari baráttu og látir þennan boðskap ganga áfram.

Takk fyrir mig. :-)

© 2018 Gunnlaugur GuðmundssonSímar: 897 7176
g.gudmundsson@icloud.com774 1088