Gunnlaugur Guðmundsson
stjornuspeki.is

Að vera eða ekki vera

27. október 2014

Það hvernig maður er, á ákveðnu tímaskeiði við ákveðnar aðstæður, er ekki endilega það hvernig maður er að upplagi.

Upplag okkar geymir bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar.

Þegar ég er þreyttur eða mér er ógnað vegna ákveðinna aðstæðna þá á hið versta í persónuleika mínum til að brjótast fram.

Þegar ég er úthvíldur og aðstæður eru mér hagstæðar þá birtist hið besta í persónuleika mínum.

Þeir sem kynnast mér á erfiðum tímum gætu sagt: Ég þekki Gulla af eigin reynslu, hann er mislyndur, óþolinmóður og agalaus.

Þeir sem kynnast mér við jákvæðar aðstæður gætu sagt: Ég þekki Gulla af eigin reynslu, hann er næmur, sanngjarn og duglegur.

Báðir hafa rétt fyrir sér. Ég á báðar hliðarnar til í persónuleika mínum.

Báðir hafa rangt fyrir sér, ef þeir halda að ég sé bara neikvæður eða bara jákvæður í hegðun.

Og þá er það kjarni málsins, hvað varðar sjálfsþekkingu:

Við þurfum að þekkja þá orku sem býr í upplaginu og vita þar með í hvaða jákvæðar og neikvæðar áttir hún getur farið.

Þegar ég þekki möguleikana, þá get ég stjórnað eigin lífi.

Ég get forðast það neikvæða, m.a. með því að forðast athafnir og umhverfi sem koma mér í uppnám eða draga úr orku minni.

Ég get eflt það jákvæða, m.a. með því að sækja í athafnir og aðstæður sem henta upplagi mínu og auka þar með orku mína.

Til að forðast og efla þarf ég að þekkja og skilja, vita hver ég er.

Þess vegna leita ég sjálfsþekkingar.

© 2018 Gunnlaugur GuðmundssonSímar: 897 7176
g.gudmundsson@icloud.com774 1088