Gunnlaugur Guðmundsson
stjornuspeki.is

Eldurinn

31. desember 2018

Eldur: lífgjafi og umbreytingarafl

Hrútur (20. mars - 20. apríl), Ljón (23. júlí - 23. ágúst) og Bogmaður (22. nóvember - 21. desember).

Eldur leitar alltaf upp og er því úthverfur í eðli sínu. Hann er lífgefandi. Hann er „neistinn“ sem kveikir lífið og gefur frá sér hita og kraft. Jafnframt því er hann umbreytandi í eðli sínu. Ef þú kveikir í viðardrumbi – eða hverju sem er – þá brýtur eldurinn eldsmatinn niður og þeytir logum og hita út í loftið og skilur að lokum eftir ösku. Eldur breytir einu ástandi í annað. Hann myndar efnahvörf.

Eldur hreyfir við hlutum og því líður börnum eldsins illa í umhverfi sem einkennist af kyrrstöðu. Þau verða óþolinmóð þegar lítið er um að vera, þegar fólk talar hægt og verkefni ganga hægt fyrir sig.

Það er ekki í samræmi við eðli eldsins að fara troðnar slóðir eða láta aðra stjórna því í hvaða farveg hann fellur. Hann er frekar villtur og hvatvís og þarf að loga þangað sem hvötin tekur hann og áhugi, efniviður og súrefni leynast.

Eldsbörnin þurfa því að búa við sjálfstæði og frelsi til að loga, tjá sig og koma sínu á framfæri. Hvötin þarf að koma frá þeim sjálfum. Þau ein skynja – innra með sér – hvað það er sem kveikir eldinn. Aðrir geta ekki sagt þeim hvað gera þarf til að kveikja áhuga og lífsneista.

Þar sem eldurinn þarf brenni getur hann ekki haldið sig lengi á sama svæðinu, nema þá að um nægan eldsmat sé að ræða, umbreytingu, athafnasemi, hugsjónir, líf og fjör. Það þýðir að hegðun eldsfólks hefur oft á sér ákaft og dramatískt yfirbragð. Innlifun hvers augnabliks er heit og sterk.

Eldurinn er tilfinningaríkur og hvatvís. Það er ríkt í eðli hans að sýna kröftugar tilfinningar: reiði, öskur, hróp og hlátur, en erfiðara á hann með depurð og þá tegund tilfinninga sem er sprottin út frá rólegri íhugun á umhverfinu. Hann þolir ekki þá sem væla yfir hlutum eða eru endalaust að velta sér upp úr sama málinu.

Eldurinn vill taka á málum eða – ef eitthvað slæmt kemur fyrir – láta sem ekkert hafi gerst, hella sér út í athafnir, rjúka í tiltektir, hreinsa til í geymslunni, rífa niður veggi eða setjast á mótorhjól og æða af stað út í buskann.

Eldurinn sýnir yfirleitt ást og væntumþykju á opinn hátt, en er ekki sérlega nærgætinn. Hann tekur því ekki alltaf tillit til viðbragða annarra. Hann á til að missa ýmiss konar athugasemdir út úr sér – sem særa viðkvæmt fólk – en er sjálfur ekki að velta afleiðingunum fyrir sér. Hann heldur áfram.

Hin hreina og beina framkoma eldsins þýðir að sumir óttast hreinskilni hans og einlægni, aðrir hneykslast yfir hegðun hans.

Eldurinn lætur frá sér orku og hita líkt og Sólin en um leið er hann ekki góður að leika þolandi hlutverk. Hann er oft bráðskemmtilegur afl- og orkugjafi en á til að gleyma að hlusta, íhuga og skynja hvað um er að vera. Hann er því yfirleitt frábær í hófi. Án hans væri lífið bragðdauft og litlaust, en of mikið af því góða getur verið þreytandi.

Eldurinn getur orðið hættulegur – sjálfum sér og öðrum – ef umhverfið er einhæft og ekki er nóg af eldiviði. Það dofnar yfir eldi sem þarf lengi að búa við kyrrstöðu og lífleysi. Eldur án súrefnis og brennis nær ekki að loga. Hann verður að daufri týru. Neistinn í augunum og glóðin í sálinni dofna.

Eldur sem fær ekki útrás getur einnig snúist gegn sjálfum sér og umhverfi sínu. Hann tekur þá að nærast á eigin líkama og hreinlega brennur upp að innan. Stundum er talað um að brenna kertið í báða enda. Hann getur einnig tekið upp á því að eyðileggja það sem honum er kært, eingöngu til að kveikja elda og fá þar með eitthvað – hvað sem er – til að gerast.

Eldurinn þarf áskoranir og athafnir. Þó að loftið, fólk og hugmyndir örvi eldinn þá fær hann fljótt leið á pælingum sem ekki leiða til athafna. Frá orðum til athafna gæti því verið eitt af mottóum eldsins.

Kjarni málsins – þegar eldurinn er annars vegar – er þessi: Það þarf að kveikja eldinn og til að hann logi vel þarf súrefni og nóg af eldivið.

Hvað kveikir eld? Hvað þarf eldurinn til að viðhalda loganum? Hvað slekkur eld?

Eldurinn er sjálfsprottinn og kviknar þegar áhugi er til staðar. Áhugi er lykilorð. Eldsbörnin þurfa því alltaf að spyrja sig: Hvað kveikir áhuga minn? Og síðan þurfa þau að sinna áhugasviðinu.

Eldurinn er umbreytingarafl og því er nauðsynlegt að eldsbörnin fáist við verkefni sem fela í sér umbreytingu. Þar má nefna hugsjónir sem eru þess eðlis að þau feli í sér jákvæðar breytingar á þjóðfélagi, fyrirtæki, umhverfi og fjölskyldu.

Gleði, hlátur, tónlist, litir, líf, athafnasemi og fjör eru sömuleiðis meðal nærandi og í raun nauðsynlegra athafna fyrir Hrúta, Ljón og Bogmenn.

Súrefni (loft) og viður (jörð) gera eldinum kleift að loga. Það þýðir að eldsbörnin þurfa að hafa andrými. Í umhverfi þess þarf að vera nóg af fólki, pælingum og hugmyndum sem víkka sjóndeildarhringinn og koma í veg fyrir að vitundin verði þröng og þar með tærandi og brenni inn á við.

Jörðin þarf að vera til staðar í formi peninga og athafna sem gefa eldinum kost á að framkvæma það sem vekur áhuga hans.

Vatnið slekkur eldinn sem þýðir að eldsmerkin þurfa að forðast kyrrstöðu, þögn, depurð, neikvæði, áhyggjur og ótta. Það gera þau meðal annars með því að sækja í gleði og athafnasemi og umgangast fólk í lofts- og jarðarmerkjum.

Lítill eldur

Ef enginn eldur er í stjörnukorti þá getur „bruni“ orðið lítill og „melting“ þar með viðkvæm. Þeir sem eiga við slíkt að stríða þurfa að huga sérstaklega að mataræði og leggja áherslu á léttan og trefjaríkjan mat en forðast mikið unninn og þungan mat.

Lítill eldur getur leitt til depurðar og skorts á lífsgleði. Sjálfstraust getur vantað, viðkomandi er þungur og líflaus og óttast nýjungar. Fólk sem hefur lítinn eld logar sjaldan af áhuga og kveikir þar með ekki í öðrum. Á móti kemur að það verður sjaldan æst eða brjálað af reiði. Jákvæða hliðin á litlum eldi í stjörnukorti er því jafnaðargeð og yfirvegun.

Eldurinn er tengdur hreyfingu, athafnasemi, litum, sköpun, söng og gleði. Þeir sem hafa lítinn eld þurfa að sækja í gleði og gæta þess að hreyfa sig, því að slíkt örvar bruna.

Of mikill eldur

Of mikill eldur, eða ójafnvægi á ákveðnum eldsþætti, getur leitt til þess að kertið er brennt í báða enda. Of mikill eldur getur verið niðurrífandi, framkallað æsing, hvatvísi, fljótfærni og eirðarleysi. Þetta getur leitt til margs konar vanhugsaðra athafna í vinnu og einkalífi og einnig til erfiðleika í samskiptum, m.a. út af hömluleysi og þess að valtað er yfir aðra.

Of mikill eða ráðandi eldur í stjörnukorti getur leitt til of mikils bruna. Viðkomandi verður „horaður“ og tærður. Hraði verður mikill, eirðarleysi, athafnasemi, mikil orka, mikil vinna, stórar veislur og síðan allt í einu ... búmm ... allt í steik ... kerfið brennur yfir. Ef einhverjir eiga að forðast áfengi og fíkniefni þá eru það þeir sem hafa mikinn eld í korti sínu.

Eldurinn kallar á hreyfingu. Eldsfólk sem býr við kyrrstöðu verður niðurrífandi. Eigi að síður þarf að huga að jafnvægi því að of mikil hreyfing getur leitt til ofbruna. Gott er því að hreyfingin sé jákvæð og tengd útivist sem styrkir jarðsambandið, en ekki „djammhreyfing“ tengd áfengi því að slíkt brennir upp taugakerfið. Dæmi um einstakling sem réð illa við eldinn er Jimi Hendrix Bogmaður, Rísandi Bogmaður, maður sem lifði hratt og dó 27 ára gamall.

Frumkvæði, stöðugleiki og breytileiki eldsmerkjanna

Það sem gerir eldsmerkin ólík innbyrðis er staðsetning þeirra innan árstíðanna. Hrúturinn markar upphaf vorsins. Hann er því sagður frumkvæður (byrjun). Ljónið spannar miðju sumarsins og er sagt stöðugt, enda um hápunkt og hámark árstíðarinnar að ræða. Bogmaðurinn er síðasta haustmerkið og er því sagður breytilegur (árstíðinni er að ljúka).

Hrúturinn (20. mars - 20. apríl) er hrárri og umbúðalausari en hin eldsmerkin. Hann er sinueldur vorsins, kveikt er í grasi gamla ársins til að undirbúa jörðina fyrir sáningu. Hann er frumkvöðull. Á fyrstu vordögunum þarf að gera margt, byrja á alls konar verkefnum og fara nokkuð ört úr einu í annað. Hrúturinn er því beinskeyttastur og sneggstur eldsmerkjanna. Hrútseldurinn brennur hratt eins og tundurþráður í átt að sprengihleðslu. Hann vill hafa skýr markmið og fara beint þangað sem fara þarf.

Ljónið (23. júlí - 23. ágúst) er ósveigjanlegt og heldur fast í hugsjónir sínar og viðhorf. Það vill varanleika. Ljónseldurinn brennur á stöðugan hátt en gýs upp annað slagið og getur þá orðið að miklu báli, sbr. skógareldar heitra sumardaga. Ljónið spannar þann tíma þegar náttúran er í fullum blóma og er því iðulega skrautlegt og áberandi. Ljónið eitt og sér er latara en hin eldsmerkin, enda er sumarið alsnægtaborð náttúrunnar, tími leikja, sköpunar, rómantíkur, gleði, veisluhalda, „skátaelda“ og söngs. Þegar áhugi er hins vegar til staðar þá er Ljónið kröftugt og fært um að lyfta grettistaki.

Bogmaðurinn (22. nóvember - 21. desember) er breytilegastur og óútreiknanlegastur eldsmerkjanna. Hann hefur áhuga á að kynnast öllu mögulegu og pæla í margvíslegum málum. Þaðan er kominn áhugi hans á ferðalögum og þekkingu en einnig hin ríka þörf hans fyrir sjálfstæði og frelsi. Breytilegi eldurinn logar í allar áttir og dreifist víða. Hann er eldur síðustu förulesta og veiðidaga haustsins, kveiktur að kvöldlagi þegar fólk safnast saman, segir sögur, flytur boðskap og horfir upp í stjörnubjartan himin.

Voreldur, sumareldur og hausteldur

Það er athyglisvert að vetrarmerkin þrjú eru jörð, loft og vatn. Eldurinn logar ekki að vetrarlagi, ekki af sjálfu sér frá náttúrunnar hendi, enda veturinn kaldur árstími.

Eldsmerki: Hrútur, Ljón, Bogmaður.
Jarðarmerki: Naut, Meyja, Steingeit.
Loftsmerki: Tvíburi, Vog, Vatnsberi.
Vatnsmerki: Krabbi, Sporðdreki, Fiskur.

© 2018 Gunnlaugur GuðmundssonSímar: 897 7176
g.gudmundsson@icloud.com774 1088