Gunnlaugur Guðmundsson
stjornuspeki.is

Náttúrugen mannsins

28. nóvember 2020

Ég fékk áhuga á stjörnuspeki árið 1969. Fyrsta stjörnukortið gerði ég árið 1973. 1. júlí 1981 kl. 13 var fyrsti einkatíminn. Staðurinn var Ljósvallagata 12 í Reykjavík. Sú stund markar upphaf vinnu minnar sem stjörnuspekings. Ég hef sem sagt haft áhuga á þessu fagi í 45 ár, hef gert stjörnukort í 41 ár og hef haft fagið að atvinnu í 33 ár - nú árið 2014.

Stjörnuspeki er ævafornt fag, hversu gamalt veit enginn, en þó er hægt að gefa vísbendingar:

1) Stjörnuspeki er jafngömul tímanum eins og við mennirnir teljum hann, enda er hún tímatalið sjálft. Hún er tíminn. Mánuðirnir (mána/tunglhringir) eru tólf, enda tólf ný og full tungl í hverju ári. Dagarnir voru upprunalega skírðir eftir hinum sjáanlegu himintunglum, sunnudagur, mánadagur, marsdagur o.s.frv.. Stjörnuspeki er sömuleiðis tíminn í þínu persónulega lífi, enda telur þú aldur þinn útfrá ferðum Jarðar í kringum Sól.

2) Uppruna vestrænnar nútímastjörnuspeki má rekja til ársins 331 f.Kr. þegar Alexander mikli hertók Babylóníu og Persaveldi, nú Írak. Í kjölfarið runnu sama heimspekihyggja Grikkja og stjarnfræðileg arfleið Súmera og Kaldea. Niðurstaðan er vestræn stjörnuspeki. Síðan eru liðin 2345 ár.

Fljótlega í námi mínu uppgötvaði ég að stjörnumerkin fylgja ákveðinni reglu og lögmálum sem sjá má í náttúrunni. Stjörnumerki tólf eru í raun ekki annað en nöfn á tólf fösum árstíðanna. Stjörnumerkin og mánuðir ársins eru upprunalega eitt og hið sama – nöfn sem eiga að segja okkur hvaða orka og veður eru til staðar á hverju tímaskeiði fyrir sig.

Útfrá framangreindu má segja eftirfarandi: Stjörnuspeki er náttúru- og eðlisfræði fortíðarinnar. Hún er tungumál sem fornmaðurinn notaði til að útskýra heiminn og tengsl mannsins við náttúruna.

Smátt og smátt hefur runnið upp fyrir mér að nauðsynlegt er að uppfæra þetta tungumál til nútímans. Hrútur er nafn sem fornmaðurinn notaði til að útskýra fyrsta vorfasa ársins. Sá hraði og hvatvísi sem einkennir þetta dýr endurspeglar þá orku sem býr í þessum árstíma. Fornmanninum fannst Ljónið - konungur dýranna – eiga vel við þá litadýrð, tign og kraft sem einkennir hásumarið. Nauðsyn þess að tungumálið sé uppfært liggur í því að á 21. öldinni búum við flest í borgríkjum. Tengsl okkar við náttúruna eru lítil og við þekkjum ekki lengur hegðun þeirra dýra sem fornmaðurinn vísar í.

Markmið mitt – með því sem fylgir hér á eftir - er að útskýra lögmál náttúrunnar – eins og þau birtast í lífi okkar manna – og styðjast þá bæði við tungumál fortíðar og nútíðar. Fornmaðurinn sagði: Þetta er skráð í stjörnurnar. Vísindamaður nútímans segir: Þetta liggur í genunum. Ég segi: Lögmál lífs okkar eru skráð í náttúrugen okkar.

Það vekur upp spurningar: Hvernig eru þessi lögmál? Hvernig eru náttúrugenin? Hvaða kraftar móta þau og hreyfa? Hvaða kerfi liggur að baki og stjórnar innra gangverki hlutanna – í lífi okkar manna?

Lífkerfi og forrit

Ég vil byrja þessa umfjöllun um náttúrugen mannsins á því að nefna fyrirbærið lífkerfi.

Alheimurinn er stór, en innan hans er óteljandi fjöldi ólíkra lífkerfa. Minnsta lífkerfið er svokallaður einfrumungur. Maðurinn er skilgreindur sem fjölfrumungur því líkami hvers manns er mótaður af milljörðum fruma. Hversu mörgum er ekki nákvæmlega vitað en tölunar nálgast fjölda stjarna alheimsins. Talað hefur verið um 10 í 14 veldi.

Lífkerfin eru mörg og misstór. Jörðin okkar er eitt samspilandi vistkerfi. Sólkerfið okkar er stórt lífkerfi. Vetrarbrautin sem hýsir sólkerfið okkar sem hýsir Jörðina sem hýsir okkar mennina er sömuleiðis lífkerfi, risastórt ef miðað er við hinn agnarsmáa ‘homo sapiens’.

Hver maður er sjálfstætt lífkerfi
um leið er hann hluti af lífkerfi Jarðar
sem er hluti af sólkerfi
sem er hluti af vetrarbraut
sem er hluti af enn stærri lífkerfum.

... lífkerfi, innan lífkerfa, innan lífkerfa ...

Allt spilar saman. Þannig sé ég þetta. Þannig er þetta.

Lífkerfi eru forrituð

Maðurinn er forritaður til að vera eins og hann er!

Öll lífkerfi fylgja ákveðnum forritum. Upplag, hegðun og tímasetningar - m.a. tengdar vexti og aldri – eru í upphafi skrifaðar inn í hvert lífkerfi fyrir sig.

Sem dæmi má nefna að í kringum 6 ára aldur missum við öll barnatennur. Og sýnum umheiminum stolt hinn skörðótta munn. Það er skrifað í lífkerfi okkar að missa tennurnar en það virðist líka skrifað þar að fyllast stolti yfir þessum atburði og meðfylgjandi útliti.

Við erum sem sagt forrituð. Það vekur upp spurningu:

Hvernig eru forritin sem stjórna lífi mannsins?

Hringrásir og spíralar

Eitt það fyrsta sem vekur athygli mína og þeirra sem hafa velt þeirri spurningu fyrir sér – hvernig lífkerfin starfa - er að allt í lífinu virðist bundið í hringrásir.

Öll kerfi náttúrunnar eru bundin í tíma og ganga í gegnum ferli sem einkennist af fæðingu, vexti, hámarki, hnignun og dauða.

Útfrá því má tala um eftirfarandi lögmál:

Allt í náttúrunni er bundið í hringrásir

Hringrásina útskýrum við síðan á eftirfarandi hátt: Hringrás er (hring)ferli sem felur í sér ákveðinn stíganda, endurtekningu og takt - byrjun, vöxt, hámark, hnignun, nýja byrjun. Endurtekningin er ekki algjör, því upphafs- og endapunktar hringferla eru aldrei á sama stað, ferðalagið felur í sér breytingu, sem m.a. tengist því að hver áfangi fyrir sig á sér stað á öðrum tímapunkti.

Því má tala um spírallagað hringferli og segja að í raun sé hringrásin:

Hringrásar-spírall

Lífið sjálft er hringrás, fæðing, vöxtur, hnignun, dauði og endurfæðing.

Árstíðirnar eru þekkt hringrásarfyrirbæri: Þær skiptast í fjóra áfanga – vor, sumar, haust og vetur – sem síðan skiptist hver í þrjá fasa, í byrjun, hámark og lok hverrar árstíðar. Samtals 12 fasar og 12 mánuðir.

Það eru einmitt árstíðirnar sem eru uppspretta þeirra kenninga sem ég set fram hér á eftir um eðli hringrása og eru um leið lykillinn að því að skilja það hvernig forrit lífsins virka.

Við fyrstu sýn virðist hringrásin einfaldur hringur fjögurra áfanga. Við nánari athugun er hringrásin spírallaga.

Hún byrjar í einföldum punkti (fræ/sæði/egg), stækkar jafnt og þétt, umfangið eykst, þar til hámarki vaxtar er náð, þá verður umpólun, umfangið tekur að minnka, hringrásin dregst saman og endar í einföldum punkti. Og byrjar aftur.

Þannig er líf okkar manna. Fyrstu árin er leikvöllurinn þröngur, herbergið og íbúðin heima. Við vöxum til manns og á hátindi lífs okkar er leiksviðið heimurinn allur. Við eldumst og leikvöllurinn verður aftur þröngur, íbúðin heima eða herbergið eina.

Orkuhreyfing innan hringrása

Ýta áfram, festa í sessi, dreifa

Ég sagði í formála að liðin eru rúm 40 ár frá því að ég gerði fyrsta stjörnukortið. Allan þennan tíma hef ég skoðað stjörnumerkin og árstíðir náttúrunnar. Samhliða hef ég velt fyrir mér eðli mannsins og reynt að sjá hvaða samasemmerki er á milli manna, náttúru og hringrása.

Svarið má finna í þeirri þekkingu sem forfeður okkar hafa skilið eftir sig. Mánuðir ársins (stjörnumerkin) eru ýmist sagðir frumkvæðir, stöðugir og breytilegir. Orka þeirra er ýmist úthverf eða innhverf. Ráðandi byggingarefni (kraftar) eru eldur, jörð, loft og vatn. Það er til dæmis enginn eldur ríkjandi að vetrarlagi, í þremur síðustu fösum hringrása, enda kuldi ráðandi og lífmagn lítið í þeim tímafasa. Þetta er það kerfi sem kemur frá Grikkjum og Súmerum. Það er lenska á 21. öld hinna hrokafullu vísinda (mín orð) að henda barninu með baðvatninu, segja fortíðarþekkingu úrelta og álíta allt það nýja betra en hið gamla. Við lifum á tímum þar sem flest öllu sem er eldra en nokkurra ára er hent. Ég kýs hins vegar að láta nýtt vatn renna í karið og halda barninu.

Útfrá framangreindu hef ég komist að eftirfarandi: Orka innan hringrása hreyfist á ákveðinn hátt eftir því í hvaða fasa hún er. Orka byrjunarfasa (til dæmis vorbyrjun) er eins og píla, hún leitar áfram og útávið. Í hámarksfasa (til dæmis hásumar) leitast hún við að festa sig í sessi og öðlast stöðugleika. Í lokafasa (til dæmis sumarlok) dreifist orka í allar áttir og tekur um leið að undirbúa breytingu í byrjunarfasa næsta áfanga.

Inn og út bylgjuhreyfing

Fyrir utan ‘byrja, festa, dreifa’ hreyfingu þá hef ég – eins og fleiri - komist að því að orka innan hringrása er ýmist að leita út á við eða inn á við. Hún er eins og alda sem rís og hnígur á snúningi innan hringlaga spírals.

Orka hverfist út (er úthverf), orka hverfist inn (er innhverf).

Það er ekki alltaf hægt að vera á útopnu. Tryggja þarf undirstöðu, vinna innhverfa rótarvinnu og síðan að skjóta fram blöðum og vinna súrefni úr loftinu. Í mannlífinu birtist þetta þannig að við þurfum annað slagið að draga okkur í hlé og hlaða batteríin. Dagur og nótt eru sömuleiðis ágætt dæmi um þetta úthverfa/innhverfa ferli náttúrunnar.

Byggingarefni hringrása - lífsins

Eldur, jörð, loft og vatn

Líttu í kringum þig. Það er næsta ljóst að sum af þeim ‘efnum’ sem móta lífið og við sjáum í umhverfi okkar eru logandi, brennandi og heit. Sum efni eru þung, áþreifanleg og formföst. Önnur eru loftkennd, ‘létt’ og óáþreifanleg. Enn önnur eru vökvakennd og fljótandi. Eldurinn, jörðin, loftið og vatnið. Lífmagnið, efnið, súrefnið og vökvinn.

Samsetning byggingarefna er mismunandi frá einu lífkerfi til annars. Sum lífkerfi eru vökvakennd að meginhluta, önnur létt og loftkennd, önnur þurr og jarðbundin.

Maðurinn – homo sapiens – er u.þ.b. 70% vatn, x% er jörð (þ.e.a.s. húð, vöðvar og bein). Maðurinn þarf loft (súrefni) til að nærast og blóðrásin/boðefnakerfið flytur 'eld' um líkamann. Við dauðann hættir maðurinn að draga andann (loftið), lífsneistinn (eldurinn) hverfur, líkaminn (jörðin) þornar (vatnið gufar upp) og það sem áður var stoltur einstaklingur verður að dufti jarðar.

Svona er þetta

Öll lífkerfi eru stödd innan hringrása, áfanga og hreyfingarfasa.

Til að skilja lífið þurfum við að vita í hvaða áfanga og fasa hvert einstakt lífkerfi er.

Efniseindir lífsins – og þar með maðurinn – hegða sér og hreyfast á sinn sérstaka hátt eftir staðsetningu þeirra innan hringferla lífsins.

Ákveðinn taktur ómar jafnt í náttúrunni og sál okkar - að ýta, að festa, að dreifa - útávið, innávið - aftur og aftur sami ryþmi.

Fornmaðurinn kallaði hringrásarfasa náttúrunnar stjörnumerki. Í dag köllum við þessa sömu fasa mánuði. Uppruninn er reyndar gleymdur og tengslin ómeðvituð. Við líðum áfram um steinsteyptar götur í málmhylkjum og bryðjum róandi, örvandi og kvíðastillandi til að breiða yfir þá angist sem tengslaleysið við náttúruna skapar í sálarlífi okkar.

Öll orkusvið persónuleika okkar lífsorka, tilfinningaorka, hugarorka,
kærleiksorka og baráttuorka eru hringrásarbundin lífkerfi, innan annarra lífkerfa náttúrunnar.

Öll lífkerfi – menn, dýr, gróður – eru forrituð á sama hátt.

Við mennirnir erum frumur á líkama Jarðar. Saman myndum við stórt net. Allir þræðir netsins tengjast, allt nærist á hvert öðru, við á dýrum og gróðri, dýr og gróður á okkur.

Lífið er eining – eitt stórt forrit.

Dæmigert hringferli

Við mennirnir erum fæddir á áföngum innan hringrása, lífsorkan á einum stað, tilfinningaorkan á öðrum, hugarorkan á þeim þriðja. Þetta atriði útskýrir þann eðlismun sem er á milli einstakra manna. Öll eigum við heima í sama lífkerfinu, en hvert okkar á sínum sérstaka stað.

Kenningin

“Ef þú þekkir lögmál eins lífkerfis þá getur þú ályktað um tengd kerfi.”

Eining lífsins

Margir vita lítið um stjörnuspeki, en hafa samt sterkar skoðanir sem óspart eru látnar í ljós. Gjarnan er talað um aðdráttarafl og stjörnuspeki ‘afsönnuð’ á þeim forsendum að þyngdarafl á milli pláneta hafi engin áhrif á manninn. Einn ágætur háskólamaður birti til að mynda grein um það að aðdráttarafl Plútós á Jörðina væri ekki meira en aðdráttarafl flugvélar sem væri að lenda á Amsterdamflugvelli. Að hans sögn sýndi þetta fram á fáránleika stjörnuspeki.

Því miður fyrir þennan ágæta mann þá tala stjörnuspekingar ekki um aðdráttarafl þegar kenningar eru annars vegar. Sir Isaac Newton gaf út rit sitt, ‘the Principia’ árið 1687, 2018 árum eftir að Alexander mikli hertók Babylóníu, atburð sem markar upphaf vestrænnar nútíma-stjörnuspeki. Ég undrast það að einhver haldi að kenning hafi komið fram á sjónarsviðið 2000 árum eftir upphafsgöngu fags. Halda menn að grísku heimspekingarnir sem kenndu stjörnuspeki á eyjunni Cos eða í Alexandríu í Egyptalandi hafið vitnað í Isaac Newton?

Stjörnuspeki, eðlis- og náttúrufræði fornaldar, hefur frá upphafi vega byggt á þeirri kenningu að ekki sé aðskilnaður á milli þeirra lífkerfa sem móta heim okkar. Fornmaðurinn trúði því að maður og heimur væru eitt. ‘As Above, so Below.’ Kenningin er þessi: Sólkerfi, Jörð, maður, dýr, gróður og frumur eru lífkerfi sem tengjast innbyrðis – lífkerfi innan lífkerfa. Lífið er ein heild. Sömu kraftar, eiginleikar og lögmál eru gildandi alls staðar á sömu stundu.

Fjölskyldugen – náttúrugen

Ég vil orða þetta svona: Erfðavísindamaður notar smásjá til að rannsaka frumur og ályktar í kjölfarið um manninn. Fruma og maður tilheyra sama lífkerfi. Stjörnuspekingur notar stjörnusjónauka til að rannsaka sólkerfið og ályktar í kjölfarið um manninn. Maður og sólkerfi tilheyra sama lífkerfi.

Og ég ítreka: Ekki er tekið mið af áhrifum, segulkröftum á milli eða frá plánetum, þyngdarafli eða slíku. Pláneturnar hafa engin sérstök áhrif á þig, ekki frekar en þú á þær. Þið tilheyrið sama lífkerfi, sama veruleika, sömu verund. Þið eruð eitt.

Þetta þýðir um leið að stjörnuspeki er ekki vísindi. Hún fellur ekki undir aðferðafræði nútímavísinda. Ég er ekki vísindamaður. Ég nota ákveðið kerfi sem aðrir geta sannreynt en kerfið er það stórt að styðjast þarf við innsæi þegar niðurstöður eru túlkaðar. Eftir því sem ég fæ best séð þá hafna nútímavísindin innsæi mannsins og setja sundurgreinandi rökhugsun ofar öðru. Í þeirri heimspeki sem hér er sett fram eru innsæi og tengslahugsun sett framar öðru. Að baki liggur sú vitneskja að maðurinn hefur flókinn og fullkominn heila og getur því – með réttri þjálfun - tengt saman og túlkað flóknar upplýsingar. Já það er hægt að þjálfa innsæið og komast með aðstoð þess að réttum niðurstöðum, ekki síst ef til staðar er þekking og reynslu á því sviði sem verið er að fjalla um. (Innsæisþjálfun hefur verið iðkuð í árþúsundir, sérstaklega í austrænum menningarsamfélögum.)

Hvað er stjörnukort?

Og þá er það spurningin: Hvað er stjörnukort? Svarið er að stjörnukortið þitt er mynd af sólkerfinu og afstöðu þess við Jörðina á augnabliki fæðingar þinnar. Það má segja að tekin sé ljósmynd. Fæðingarstundin er 'fryst' og það skoðað hvaða kraftar einkenndu þessa tilteknu stund. Hvaða árstíð var ríkjandi? Hvar innan hringrása voru pláneturnar? Útfrá því er orka þín greind.

Að baki liggur sú hugsun að þú sért sú orka sem var til staðar í sólkerfinu á fæðingarstund þinni. Afhverju? Þú og heimurinn eruð eitt og hið sama.

Einingarheimspeki

Kína
Kínverjar segja náttúruna eitt kerfi, Tao, með andstæðum og mótverkandi pólum: Yin og Yang.

Norður Ameríka
“Þetta vitum við – Jörðin tilheyrir ekki manninum, maðurinn tilheyrir Jörðinni. Allir hlutir tengjast eins og blóðið sem sameinar fjölskylduna. Það sem hendir Jörðina mun henda syni Jarðarinnar. Maðurinn óf ekki vef lífsins, hann er einungis einn af þráðum þess. Það sem hann gerir vefnum, gerir hann sjálfum sér.” (Orð eignuð Indíánahöfðingjanum Seattle, 1854)

Biblían
Í Sköpunarbók Biblíunnar segir: “Guð skapaði manninn í sinni mynd.” Á öðrum stöðum er sagt að Guð sé alls staðar og alltumlykjandi, bæði skaparinn og sköpunin sjálf. Ef Guð er heimurinn (sköpunarverkið) þá þýðir þessi setning – samkvæmt mínum skilningi - að lífkerfi mannsins endurspegli lífkerfi heimsins. Hringrásarkenningin er einnig sterk í kristni: Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða. Af jörðu muntu aftur upp rísa.

Búddismi
Í Búddisma er kenning sem er kölluð Dharmadhatu (Alheims-vettvangur). Þar segir að á milli allra hluta og atburða í alheiminum sé enginn aðskilnaður eða landamæri. Hin einstöku lífkerfi sem við sjáum í umhverfi okkar eru hlutar af einum og óaðskiljanlegum veruleika.

Heimspeki
Alfred North Whitehead (1861-1947) talaði um lífræna heild og bylgjuhreyfingu veruleikans. Þar segir að öll þau atriði sem við teljum yfirleitt ósamræmanleg - orsök og afleiðing, fortíð og framtíð, skoðandi og viðfangsefni - séu tengd líkt og hátindur og öldudalur á sömu bylgjunni. Aðskilnaður er því ekki til. Whitehead kallaði þetta hina 'saumalausu kápu alheimsins'.

Skammtafræði
Óvissulögmál Werners Heisenberg (1901-1976) segir að ómögulegt sé að mæla ýmsa eiginleika öreinda án þess að tapa mikilvægum upplýsingum. Ástæðan er sú að rannsakandinn hefur alltaf áhrif á rannsóknarefnið sem þýðir að ómögulegt er að skilja þetta tvennt að.

Indland
Í indverskri speki er sagt að hver maður hafi þrjá líkama: jarðarlíkama, hugarlíkama og tilfinningalíkama.

Eitt af því sem skapar þjáningu er það hversu háð við erum líkamlegum löngunum, erum ofvirk í hugsun og látum stjórnast af tilfinningum eins og ótta, reiði og hatri.

Ef við sækjum í kyrrð, fylgjumst með og hlustum á það sem bærist innra með þá uppgötvum við að líkami okkar, hugur og tilfinningar eru ekki annað en starfstæki.

Hið raunverulega sjálf (sálin) býr innra með og ‘handan við’ líkamana þrjá.

Ef við horfum betur innávið – horfum handan við sjálfið - þá uppgötvum við að innsti kjarni okkar er lífið sjálft eða eining alls lífs. Þessi kjarni er kallaður ýmsum nöfnum, svo sem einingarvitund, guðsvitund, Guð, Allah eða æðri máttarvöld o.s.frv..

Þegar við opnum fyrir tengslin við þennan kjarna (eininguna) þá öðlumst við æðruleysi og fáum aðgang að uppsprettu og frumorku lífsins.

Hugleiðsla og andleg iðkun opna fyrir þessi tengsl.

Sálfræði
Svissneski sálfræðingurinn Carl Jung (1875-1961) sagði að allir menn væri tengdir og byggju yfir sammannlegri reynslu. Hann kallaði það samvitundina (the collective unconscious).

Jung sagði að egó mannsins – sjálfsmeðvitund hvers manns – væri eins og eyja sem stæði upp úr hafi.

Fyrir vikið virðist sem við séum aðskilin frá hvert öðru. Undir yfirborði sjávar (en hluti af ‘eyju’ hvers manns) er persónuleg undirvitund sem geymir einstaklingsbundnar minningar hvers manns.

Þegar skoðað er dýpra kemur í ljós að eyjarnar sem virðast aðskildar hvíla á sama landgrunni – samvitund mannsins. Eyja hvers manns er því tengd öðrum eyjum sem allar eiga rætur í sömu reynslu og byggja á einni og sömu lífsuppsprettunni.

Lifir maðurinn í tómarúmi?

Til að svara því hvort persónuleiki, upplag og eðli hvers manns sé óháð náttúrunni, Jörðinni, Sólinni og Sólkerfinu, má spyrja:

Af hverju ætti svo að vera?

Af hverju ætti maðurinn að lifa í tómarúmi óháður heimili sínu og umhverfi?

Hvað er Jörðin annað en heimili mannsins og Sólkerfið annað en umhverfi þessa heimilis?

Hefur einhver sýnt fram á þá sérstöðu mannsins að hann sé aðskilinn öðru lífi?

Er mögulegt að taka einn þátt út úr stóru kraftsviði og segja hann ótengdan og óháðan?

Átt þú heima í einangraðri kúlu, úr tengslum við alheiminn, umhverfið þitt?

© 2018 Gunnlaugur GuðmundssonSímar: 897 7176
g.gudmundsson@icloud.com774 1088